sunnudagur, nóvember 30, 2003

Halló
Já núna er sunnudagur og það vita allir hvað það þýðir. Viss heilsufarsvandamál eru í gangi og ég nefni engin nöfn.
Nú við fórum í gær til Rannveigar og Bergs í fordrykki kl. 5. Rannveig er orðin "Master" og við óskum henni hjartanlega til hamingju með það. Nú - svo fórum við út að borða, á veitingahús sem heitir "Meltingpoint". Það ver líka boðið upp á þetta fráaaabæra fondue. Við fengum okkur Angus nauta fille og með því voru sallat sósur og kartöflur. Ég get ekki lýst því hvað þetta var gott. Svo reynar var forrétturinn líka frábær. Við stelpurnar fengum okkur nefnilega flamberaða sjávarrétti sem var flamberað fyrir framan okkur. Bergur fékk sér lauksúpu og Egill fékk sér fiskibollur. Já- ég veit að það hljómar fáránlega en á matseðlinum stóð "salmon fish cakes". En þegar allt kom til alls þá voru þetta bara venjulegar íslenska fiskibollur með skrauti. Og Egill sem borðar ekki fiskibollur. En foduið toppaði allt saman og við förum definetly aftur þangað. Egill og Bergur sáu sér svo leik á borði og pöntuðu sér Whisky á meðan við steplurnar fengum okkur eftirrétt. Og ekki bara einn einfaldan heldur tvisvar sinnum tvo töfalda. Og fullt af bjór með. Svo eftir að hafa skutlað mömmu hennar Rannveigar heim fórum við á háskólapöbbinn þar sem allir skólafélagar hennar Rannveigar voru að halda upp á daginn. Þar vorum við til eitt (þá lokaði) og fórum heim. Enda sumir ekki í ástandi til að halda lengra (ekki mikið í boði til að halda til).
Svo erum við núna að fara í kaffi til RogB og Hafdís ætlar að koma með krakkana þangað.
Heyrumst seinna
Ragna

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Jæja -nú má óska mér til hamingju með að vera komin í jólafrí. Já ég skilaði inn ritgerðunum mínum í dag eftir skemmtilega og fræðandi "törn". (NOT)
Nú er komið að því að sinna Eydísi og undirbúa afmælið hennar. Ég ætla að taka mér frí í viku og byrja svo á verkefnunum sem ég á að skila í janúar.
Nú annars gékk Agli rosalega vel í Edinborg (Aberdeen nemarnir voru bestir). Nú tekur það við hjá honum að hann þarf að skila inn grein sem verður flutt á ráðstefnu í vor. Nú - það er búin að bjóða okkur í mat hjá prófessornum hans Egils þann 7. des ásamt öllum hinum sem vinna í verkefninu. Það verður spennandi að sjá hvaða matur verður í boði.
Annars erum við að fara í útskriftina hennar Rannveigar á laugardaginn og allir krakkarnir gista hjá Magnúsi og Hafdísi á meðan. (þau vita sennilega ekki hvað þau eru að fara útí - hihi) En það verður sennilega voðalega fínt hjá okkur og svo förum við út að borða (eitthvað voða fínt). Mig hlakkar rosalega til.
En ekki fleira í bili - er að fara að leira með Eydísi áður en hún fer að sofa
Kveðja
Ragna

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Eins og flestir vita þá erum við að reyna að halda við þessari bloggsíðu okkar. Í kjölfarið á því vil ég minna aðra sem eru ekki eins duglegir að byrja aftur að blogga. Til dæmis má nefna Thelmu Kristínu og Þórunni Ellu. Já - við sem erum erlendis og upplýsingaskert með öllu þörfnumst fólks eins og ykkur til að halda við upplýsingaflæðinu.
Nú annars var Egill að yfirgefa mig áðan. Ekki örvænta......hann var bara að fara til Edinborgar til að flytja erindið sitt. Það er nú annað. Þeir senda strákana af stað í kvöld og borga fyrir þá eina gistinótt en tíma ekki að leyfa þeim að gista fleiri nætur. Þeir eiga allir að fara saman út að borða á morgun en svo verða þeir að hlaupa til að taka lestina kl. 21,00. Greyin.
Nú en annars er allt fínt að frétta.
Kveðja, Ragna

föstudagur, nóvember 21, 2003

Sælir allir. Já hér ríkir svo sannarlega gleði á bæ. Við vorum að fá pakka frá Íslandi með alls konar góðgæti. Já- Gillí og Gerða tengdamamma voru að senda okkur pakka. Til Eydísar eru tvær afmælisgjafir (sem eru núna geymdar uppí skáp) og svo fékk hún nammi í poka líka. Það ískraði í henni þegar hún frétti að það væri smá pakki til hennar, hún var svo ánægð. Til okkar Egils var sendur lakkrís (sennilega meira til mín en Egils) og fullt af harðfiski (sennilega meira Egils en mín). Fæ nú samt sennilega að smakka. Þetta lífgaði svo sannarlega upp á annars leiðinlegan dag. Já - dagurinn byrjaði ekki vel. Við þurftum að skafa FROST af bílnum okkar í fyrsta sinn í dag. Reyndar er veðrið alveg frábært, sól og heiðskýrt en rosalega kalt. Það spáir enn meira frosti næstu nótt. Ég held að veturinn sé að ganga í garð hérna. Nú annars ætlum við að ganga frá restinni af jólagjöfunum þessa helgina.
En fleira var það víst ekki í bili
Kveðja
Ragna

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

'ufff. Já ég byrja bloggið mitt svona því að það er all brjálað að gera og ég er búin að sitja límd við tölvuna og skrifa ritgerðir í fleiri, fleiri daga. Nú, svo er líka eitthvað að mér því að mér er svo kalt á fótunum að ég sit vafin í teppi upp að mitti, en þar tekur við annað vandamál því að mér er heitt fyrir ofan mitti þannig að ég er á stuttermabol. Svo eru fingurnir að detta af mér af kulda. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með langar setur fyrir framan tölvuskjáinn og algert hreyfingarleysi. Egill er líka alveg á fullu því að hann verður með kynningu á verkefninu sínu næstkomandi mánudag og er að æfa sig með prófessornum sínum og á fullu að búa til gröf og myndir.
Ég verð að segja það að flæðið á erfitt með að flæða, svona á ensku, og svo eru alls konar nýjar reglur með uppsetningu á ritgerðunum og hvernig maður vitnar í greinar og setur upp heimildaskrá. Mér finnst stundum eins og ég sé sú eina sem á í einhverjum vandræðum, en sennilega er það víst ekki svo.
Nú annars gengur all vel hérna, Eydísi er reyndar smá vorkun að eiga svona leiðinlega foreldra þessastundina. En við bætum henni það upp þegar við erum búin að skila af okkur. Nú af henni er helst að frétta að hún er flesta daga að skipuleggja afmælið sitt. Hún er eiginlega búin að ákveða að það verði stórveisla. Svo er hún sannfærð um að allir komi frá 'Islandi til að vera viðstaddir þessa heiðursathöfn.
En jæja - læt þetta duga í bili
Hilsen - Ragna

mánudagur, nóvember 17, 2003

Sælir allir íslendingar
Já - nú er enn ein helgin liðin og allt á fullu hérna í Abbó. Á laugardaginn buðum við Magga, Hafdísi, Rannveigu og Bergi (og Co.) í mat. Það voru eldaðar túnfisksteikur, með kartöflugratíni, sallati og tveimur gerðum af kaldri sósu. 'Otrúlega gott. Þetta er eins og að fá sér nautasteik nema bara fiskur. Merkilegt. Svo gerðum við Tiramisú í eftirrétt. Já þetta var eins konar kveðjuveisla fyrir Rannveigu og Berg því að þau fara eftir tvær vikur. O mig auma. Já það verður áfall þegar að þau fara. En við fréttum að heljarinnar villibráðarveislu heima á Íslandi og leggjum til að hún verði haldin snemma í september á næsta ári til að við getum komið. Við vorum eiginlega græn af öfund þegar við heyrðum af kræsingunum sem voru í boði.
En nu er bara rétt um mánuður þangað til að við komum heim og Egill bjó til dagatal fyrir Eydísi til að fylgjast með framgangi mála. Mikið um að vera: afmæli þann 3 des, fyrsti jólasveinninn kemur 11 des og heim þann 18 des.
En jæja - biðjum að heilsa
Ragna

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

HÆhæ - ég skrifaði smá vitleysu í síðasta pósti. Við komum heim þann 18. desember en ekki þann 19. Munar heilmiklu um það.
Kv. Ragna

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Já - nú hef ég sko fréttir að færa. Þannig er málið: VIÐ KOMUM HEIM UM JÓLIN !!! Hvernig líst ykkur á það???? Já Egill minn kom heim í gær og stakk upp á því að við skelltum okkur heim og eftir að hafa tæmt alla sparibaukana á heimilinu ákváðum við að skella okkur á það. Við keyptum meira að segja miðana í gær líka. Við komum sem sagt heim þann 19. desember og förum aftur 6. janúar.
Það var nú ágætt að Súbarúinn seldist ekki um daginn þegar hann var auglýstur. Nú höfum við allavegana bíl til umráða.
Nú fleiri voru fréttirnar ekki í bili
Kv. Ragna

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Jæja - nú eru allir búnir að venjast rauða hárinu mínu og allt gengur sinn vanagang. Rannveig og Bergur komu heim á sunnudeginum og sóttu strákana. Bergi hafði gengið einstaklega vel og er orðin "Master". Nú annars er törn framundan hjá okkur. Eydís er að fara í afmæli hjá Alexander og Benedikt næsta laugardag. Okkur er boðið til Þóris og Kristjáns laugardaginn þar á eftir, Egill á að flytja fyrirlestur í Edinborg mánudaginn 24. nóv. og svo er útskriftin hjá Rannveigu þann 29. nóv. Ég á að skila verkefnum þann 21. nóv og þann 28. nóv. Það er sem sagt nóg að gera og allir eru á fullu. Það er eiginlega hægt að segja að Eydísi gangi best í skólanum af okkur þremur.
Jæja, ég hef eiginlega ekki meira að segja í bili
Kveðja Ragna

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Haaló
Ég var að koma úr klippingu. Egill sagði bara ó, ó, ó, þegar hann sá mig. Mér finnst þetta bara fín - svolítið mikið rautt en það er allt í lagi. Ég fór í klippingu til Þóris og það var mjög fínt. Það kostar jafn mikið að láta klippa og lita sig hérna í Aberdeen eins og heima. Semsagt dýrt. Nú annars er ég að fara að sækja strákana hennar Rannveigar á eftir og þeir ætla að vera hjá okkur í fjóra daga. Bergur er nefnilega að verja mastersritgerðina sína heima á Íslandi og Rannveig ætlar að horfa á hann og veita honum móralskan stuðning. Þannig að við verðum 5 manna fjölskylda í fjóra daga. Þetta á eftir að verða ágætis törn því að strákarnir eru í skóla sem er dágóðan spotta héðan þannig að ég keyri þá þangað og Egill fer með Eydísi í sinn skóla. Nú annars er það helst að frétta að Eydísi gengur orðið rosalega vel í skólanum. Hún er farin að fá "komment" í bókina sína eins og "Great" og "fantastic". Við erum ógeðslega stolt af henni. Hún er farin að tala talsvert en það vantar enn smá uppá. Ég spái því að hún verði orðin alveg altalandi á ensku um páskana.
Jæja
Bið að heilsa
Ragna

mánudagur, nóvember 03, 2003

Slurp, Slef og namminamm.....
Já það var slátur í matinn hjá okkur í gær með öllu tilheyrandi. Já – Ágústa vinkona á heiðurinn af því að við gátum haft slátur í matinn því að hún kom með keppi til okkar um daginn. Þvílíkt lostæti!!!
Annars er helst frá því að segja að ég fór með Rannveigu á “pöbbinn” síðasliðinn föstudag. Eitthvað sem sjaldan gerist. Það var alveg stórmerkileg lífsreynsla. Já, þannig var það nú að við mættum á þennan líka sæta háskólapöbb þar sem komast sennilega ekki fleiri en 20-25 manns fyrir. Þar var engin mússík, ótrúlega þykkur sígarettureykur og fótbolti í sjónvarpinu (ekkert tal). Þarna voru líka tveir barþjónar sem voru svo líkir að þeir hefðu getað verið bræður. Sennilega orðið svona af því að vinna saman svona lengi. Nú – þarna sat fólk og rabaði saman um heim og geima og drakk alls konar bjóra í pintuglösum. Um 10 leytið tók ég eftir því að farið var að fækka verulega í hópnum og klukkan ellefu glumdi bjalla og við vorum vinsamlegast beðin um að klára úr glösunum. Já svona er pöbastemningin hérna. Allir út klukkan ellefu. Ég verð nú reyndar að taka fram að það er stranglega bannað að blóta á þessum pöbb. Merkilegt. Reyndar hafði Rannveig hitt nokkra stráka sem voru með henni í bekk og þeir vildu endilega að við kæmum með þeim á annan pöbb sem var í grendinni. Við ákváðum að skella okkur því að klukkan var náttúrulega ekki neitt á okkar mælikvarða. Nú – þessi pöbb var fullur út úr dyrum en einkum vegna þess að það var yfirstandandi Haloween kvöld og allir í búningum (nema við). Þarna var rífandi stemning og við ákváðum að fá okkur einn bjór og fara svo heim. Nú klukkan 12,30 hætti mússíkin og dyravörðurinn labbaði um og bað fólk um að klára. Ég varð alveg gáttuð. Ég meina......það er brjáluð stemmning og fólk á fullu að kaupa drykki og þú þarft bara að henda þeim út. Ég skil þetta ekki. En þetta varð sem sagt endirinn á annars ágætu kvöldi og ég ákvað að rölta heim. Rannveig aftur á móti skellti sér á einn pöbbinn í viðbót með strákunum áður en að stefnan var tekin heim.
Ég hitti Rannveigu svo aftur daginn eftir til að aðstoða hana við að kaupa sér brúðarkjól. Ég held að við höfum sett met í þessu. Ég sótti hana klukkan 13,00, vorum konar í búðirnar um 13,30 og hún var búin að kaupa sér kjól rétt rúmlega þrjú. Já – við álpuðumst inn í búðina þar sem ég keypti kjólinn minn og viti menn!! Þar var í gangi útsala. Þannig að Rannveig skellti sér á æðislega fallegan kjól á sítapening. Fannst okkur allavegana.
En nóg í bili
Kv. Ragna