þriðjudagur, október 28, 2003

Skrifað á sunnudeginum 26. október 2003
Jæja.
Það hefur verið skítaveður undanfarið og lítið gerst. Dagurinn í dag var þó veðurfarslega í lagi og ekki alveg án tilbreytinga. Ég eyddi til dæmis góðri stund að útskýra fyrir Rögnu þegar hún vaknaði að hún væri búin að sofa í tíu tíma en klukkan væri samt bara 9 en ekki tíu. Það er sem sagt kominn vetrartími í Abbo og víðar og við komin á sama tíma og Klakinn. Við fórum í bíó með Eydísi að sjá Finding Nemo sem okkur Rögnu þótti bráðsmellin en þetta var full mikill gauragangur fyrir Eydísi og svo voru engar prinsessur eða Barbígellur í henni. Eydís var svo í heimsókn hjá Rannveigu og drengjunum á meðan við Ragna fórum í jólagjafaleiðangur. Nú er sumsé um helmingur alls slíks frá – geri aðrir betur. Annars var mín helsta hvatning til þessara bloggskrifa að gera heyrinkunna á opinberum vettvangi hamingju mína yfir að það sé komið sjónvarp með textavarpi í Lynghaga, slíkt var löngu tímabært. Annars er fátt í fréttum annað en kannski það að ég hef þyngst um þrjú kíló á tveimur vikum, ekki slæmt það. Og svo þykir náttúrulega tíðindum sæta þegar Liverpool vinnur leik núorðið – ég er nú bara ekki frá því að lundin hafi verið óvenju létt þessa helgina, frá kl þrjú á laugardag og þareftir. Hið mikla fótboltalið í Abbo, Aberdeen football club, tapaði hins vegar fjögur núll (sem er nú býsna vel af sér vikið á þeirra mælikvarða) og sitja sem fastast í fallsæti sem endranær. Annars er lífið um það bil að falla aftur í fastar skorður eftir tveggja vikna skólafrí hjá Eydísi. Rétt er að nefna að þetta frí er tilkomið vegna þess að fyrir um 100 árum þurfti að gefa skoskum börnum frí í skólum til að taka upp kartöflur. Hefur Skotum greinilega gengið hægt að breyta þessu eins og fleiru.
Jæja, nenni ekki meiru.
Kv. Egill.