þriðjudagur, desember 28, 2004

Ó- Æ - ég borðaði yfir mig.
Það er ekki spurning að við Egill gerðum ráð fyrir því að heill her myndi vera í mat hjá okkur yfir jólin, svo mikið var búið til af allskonar kræsingum. En eins og góðu fólki ber að gera þá erum við búin að standa á hvolfi í ísskápnum og hann er óðum að tæmast. Það er ennþá eftir hálf brauðterta og 2 sneiðar af perutertu. Geri aðrir betur.
Annars eru jólin okkar búin að einkennast af mikilli friðsæld og einstaklega lítið búið að fara úr náttfötunum. Við klæddum okkur nú upp á aðfangadag og fögnuðum okkar fyrstu "alvöru" jólum. Það kom sér sérstaklega vel að Einar litli ákvað að fá sér lúr einmitt þegar að við vorum að borða jólamatinn og kom svo sterkur inn þegar átti að fara að taka upp pakkana. Hann var undir dyggri stjórn systur sinnar en fékk endrum eins að hjálpa til og þótti pappírinn einstaklega bragðgóður....... en þó sérstaklega merkimiðarnir. Hann sótti sér líka einn pakka sem var langur og mjór (reyndar var þetta pakki til hans) og sló honum ítrekað í hausinn á sér í árangurslausum tilraunum til að naga merkimiðann.....ógeðslega fyndið. En þetta fór allt vel fram og allir voru ánægðir með pakkana sína þó sérstaklega Eydís enda fékk hún "Bratz" sem er búin að vera draumurinn síðan í sumar.
Jóladagur fór bara í að sukka feitt í perutertum og jólasmákökum. En á annan í jólum komu Atli og Jóhanna í mat. Við elduðum skoska rjúpu (grouse) og heppnaðist hún alveg rooosalega vel. Ég var búin að hlakka svooooooo mikið til að fá þetta í matinn því að ég hef ekki bragðað rjúpu í vel á þriðja ár. En svo eigum við fjórar aukarjúpur í frystinum svona bara fyrir okkur. Alti og Jóhanna voru nátturulega eiturhress og úr varð að við förum svo til þeirra á gamlárskvöld. Atli er sko að reyna að innleiða íslenskar hefðir í götuna hjá sér og verður með flugelda. Við tökum að sjálfsögðu þátt í kaupunum á þeim til að gera þetta veigameira og skemmtilegra. Hann er sko að reyna að fá skotana til að kaupa líka flugelda og gera úr þessu ekta íslenska götuskemmtun. Gengur hægt en er allt að koma.
Nú - helstu fréttir eru síðan þær að Einar litli svaf fyrstu nóttina sína í sínu eigin herbergi síðustu nótt. Já, við Egill ákváðum að prófa að láta hann sofa annarsstaðar því að það brakar svo mikið í gólfinu hérna að þegar að við erum að koma inn í herbergi til að fara að sofa þá vaknar hann alltaf. Frekar pirrandi. En síðustu nótt gátum við meira að segja talað saman áður en við fórum að sofa.....hefur ekki gerst í sex mánuði. Þannig að í dag verður farið í að færa tölvuna inn í okkar herbergi og allt hans hafurtask inn í hans herbergi. Svo sjáum við til hvernig þetta gengur. Skrýtið samt að hafa hann ekki við hliðina á sér............ ég var lengi að sofna í gær.... snökt snökt. En ef þetta verður til þess að drengurinn sefur alla nóttina þá er það þess virði. Eydís var farin í sitt eigið herbergi þegar hún var átta mánaða.......aðallega af því að hún var alltaf kvefuð og hraut mjög pent á nóttunni (þá gat Egill ekki sofið) en ef svo vildi til að hún hraut ekki, þá hraut Egill í staðinn (þá gat hún ekki sofið). Þannig að eina ráðið var að aðskilja þau.

Bið að heilsa í bili
Ragna óðmála

fimmtudagur, desember 23, 2004

Gleðileg Jól Candy Cane 1
Hér hjá skotum hefur verið mikið að gera í dag. Við ákváðum að taka upp þá hefð frá Gislínu mágkonu að búa til brauðtertur og perutertur til þess að borða þegar og ef maður verður svangur. Þá þarf maður ekkert að vera að hafa fyrir því að smyrja sér brauð ofl.. heldur er þetta bara allt tilbúið inní ísskáp. Rosalega sniðugt. Þetta allavegana virkaði frekar vel á okkur Egil síðustu jól (þá gistum við hjá Gillí) að við þessi hefð var ættleidd. Þannig að tvær bruaðtertur og tvær perutertur bíða þess að verða étnar á hátíðunum af mér og Agli. (við verðum hnöttótt þegar þessu lýkur.) Svo var búin til frómas og fullt af ís. Ég veit ekki alveg hvað við eigum að gera við allan þennan mat. En, sumsé, nóg til að borða og fuuulllt af pökkum undir trénu. Við Egill höfum fríkað aðeins út í innkaupum fyrir börnin og pakkarnir frá okkur (og jólasveininum) eru orðnir ansi margir. Ég veit ekki hvort maður er að bæta fyrir það að börnin fá ekki að hitta afa sína og ömmur, frænkur og frænda en eitt er víst - pakkarnir eru fjölmargir.
Eydísi hlakkar svo mikið til að hún er hálf taugatrekkt. Hún kvartaði mikið yfir því að hér á landi fengu börnin að taka upp pakkana um leið og þau vöknuðu - en hætti strax að kvarta þegar ég útskýrði að það gerðist deginum á eftir okkar aðfangadegi. Einar litli varð rosalega hrifin af jólatrénu og greip traustataki í eina greinina....en... fór svo strax að gráta (mikil sorg) sennilega af því að nálarnar stungu hann í hendina. Síðan þá hefur hann eiginlega ekkert farið í tréð...né pakkana sem eru komnir undir það. Það er eins og hann skynji að það eigi að láta þetta í friði. Klár strákur.....hehe.
Jæja - nú er útlegðinni lokið (var lokuð inní gestaherbergi á meðan feðginin pökkuðu inn jólagjöfinni minni) og næstur í útlegð er Egill (af sömu ástæðum).
Bið að heilsa öllum og óska öllum gleðilegra jóla
Bestu jólakveðjur, Ragna og co.





föstudagur, desember 17, 2004

Au-per óskast
Au-per óskast á íslenskt heimili í Aberdeen í Skotlandi frá og með Febrúar. Fjölskyldan samanstendur af húsfrúnni (Ragna), fyrirvinnan (Egill), prinsessan (Eydís) og tröllið (Einar). Helsta vinnan felst í því:
  • að passa Einar þannig að húsfrúin geti skrifað mastersritgerðina sína,
  • vera skemmtileg við húsfrúnna þegar hún er að gefast upp við að skrifa mastersritgerðina sína
  • og elda einu sinni í viku til að húsfrúin geti einbeitt sér við að skrifa mastersritgerðina sína.

Í boði er sérherbergi með helstu nauðsynjum (rúm og fataskápur) og frjálst aðgengi er að heimilistölvunni (þegar húsfrúin er ekki að nota hana). Svo er náttúrulega frítt fæði og drykkir margvíslegir (djús, kaffi, mjólk og vatn).
Viðkomandi þarf að hafa einstaka þolinmæði til að geta þolað húsfrúnna og að sjálfsögðu að vera barngóð/ur. Viðkomandi þarf helst að geta byrjaði í febrúar og unnið fram undir lok júní. Aldur skiptir ekki máli - bara að viðkomandi sé nógu gamall til að halda á barni á skikkanlegan hátt.

Bestu kveðjur og takk fyrir
Ragna Elíza Kvaran (húsfrúin)


fimmtudagur, desember 16, 2004

Myndir af onytu skonum> http://community.webshots.com/album/233002677tTCRjU

miðvikudagur, desember 15, 2004

'O mig auma
Já - ég varð fyrir því mikla áfalli um daginn að uppgötva að fínu gönguskórnir mínir eru ónýtir. Já ég á svona líka fína gönguskó (Demon) eins og meira og minna allir í familíunni hanns Egils eiga. Mínir eru svartir og fínir. En svo þegar ég ætlaði í þá um daginn þá sáum við að þeir eru að molna í sundur. Þá á ég við stykkið á milli sólans og leðursins er bara að molna í burtu. Ég og Egill keyptum okkur svona skó fyrir réttum þremur árum og skórnir hans eru ennþá í fínu lagi enda kostuðu þeir aðeins meira (eru brúnir). En hann er búin að nota sína margfalt meira en ég, á rjúpu, gæs og almennt slark. Þess vegna er ég alveg miður mín. Kannast einhver annar við að hafa lent í svona vandræðum með skóna sína. Ég er næstum alveg viss um að það er einhver þarna úti sem á svona skó eins og ég.
Allavegana - þá er ég búin að senda e-mail á verslunarstjórann í Everest og sendi sko myndir með því að þetta er nátturulega engin ending. Ég var reyndar ekki frek og fór ekki fram á neitt en það verður forvitnilegt hvað hún segir þegar hún sér þetta.
Annars er allt fínt að frétta.........jólagjafainnkaup eru að verða búin. Ég á reyndar í miklu basli með að finna jólakort sem eru ekki annaðhvort A4 á stærð eða eins og frímerki. Þetta er helv. vesen. En það verður gerð ferð í kvöld til að finna eitthvað af viti.
jæja - lærdómurinn bíður
Kv. R


mánudagur, desember 13, 2004

Jæja - nú fara jólin bráðum að koma.
Ég er að fara yfirum í jólainnkaupum enda aldrei þurft að kaupa jafn margar jólagjafir. Það varð nefnilega ákveðið að við myndum bara kaupa jólagjafirnar fyrir okkur og krakkana frá öfunum og ömmunum hérna úti. Enda ekkert vit í öðru því að bæði fær maður meira fyrir peninginn hérna og svo er sendingakostnaðurinn svo himinnhár að það er bara fáránlegt. Þannig að ég er búin að arka í allar búðirnar í Aberdeen til að versla jólagjafir. En nú er þetta alveg að verða búið - á bara eftir að finna eitthvað fyrir Egil og svo eitthvað frá Agli fyrir mig (eða kannski finnur hann eitthvað fyrir mig!!)
En talandi um sendingar - við fengum heljarinnar sendingu frá fjölskyldunni hans Egils síðasta fimmtudag - jólagjafir og nammi. Síðan sama dag kom líka pakki frá Berthu systir með enn fleiri jólagjöfum og afmælisgjöf fyrir Eydísi. Þetta var góóóður dagur. Í gær fórum við í "Garden center" og keyptum okkur jólatré og jólatrésfót og samtals kostaði þetta heilar 3500 krónur. Ég hef ekki farið og keypt ekta jólatré síðan ég var krakki að fara í Blómaval með pabba á Þorláksmessu. Ég komst nánast í jólaskap fyrir vikið. Síðan fóru Eydís og Egill og settu seríur í runnann fyrir utan hjá okkur - rosalega flott. En við tókum sérstaklega eftir því að við erum þau einu í okkar götu sem erum búin að skreyta eitthvað......seríur í gluggana og þess háttar. Kannski erum við of snemma í því fyrir Skotana eða eins og við höldum frekar: þeir tíma ekki að kaupa seríur og borga auka rafmagn!!!
jæja - lítið annað í fréttum......jú !!!!!!
Einar er búin að sofa tvær góðar nætur í röð. T.d í nótt þá sofnaði hann kl. 21,00 og vaknaði kl. 04,45 og svaf svo til 07,30. Þá fór hann að syngja svona fallega í rúminu sínu að það var ekki annað hægt en að brosa. Hann er svo morgunglaður þessi drengur að það hálfa væri nóg. Svo er nú annað - hann er svo hrifin af pabba sínum að þegar að Egill kemur heim á kvöldin þá fer hann alveg yfirum (þ.e. Einar). Þetta er ferlega fyndið....
jæja - ekki meira í bili
kv. Ragna

þriðjudagur, desember 07, 2004

Það eru komnar nýjar myndir: http://community.webshots.com/album/228819195xUmTvX

Halló
Ég vil byrja á því að þakka öllum sem gáfu Eydísi afmælisgjafir. Hún var alveg ofsalega ánægð með allt dótið sem hún fékk og sagði mér að segja takk. Takk líka til allra sem sendu kveðjur og comment á bloggið. Hún var líka rosalega ánægð með afmælisveisluna sína (ég og Egill vorum enn ánægðari því við þurftum ekki að gera neitt.) Svo eftir veisluna var haldið heim með tvo fulla ruslapoka af gjöfum og það var opnað hérna heima í rólegheitunum. Þetta var alveg einstaklega vel heppnuð afmælishelgi og allir einstaklega ánægðir.

Nú - Einar litli er formlega farin að geta setið. Hann er t.d búin að sitja í samtals 10 min hérna fyrir aftan mig á meðan að ég er búin að vera að skoða mig um á netinu. Hann dettur reyndar endrum og eins á nebbann en við Egill teljum það sé allt með vilja gert (eða þannig). Hann er sko aktívur lítill kall. Ég fann fyrir tönn númer tvö í dag......pínulítill broddur sem stendur örlítið uppúr. Nú fer hann vonandi að sofa betur á nóttunni fyrst að þessar tennur eru komnar í gegn. Ég er nefnilega komin með bauga niður á læri við það að vakna alltaf svona mikið á nóttunni. Í hvert skipti sem hann vaknar virðist hann reyndar vera glorhungraður því hann fær ýmist pela eða brjóst og drekkur helling. Hann fær reyndar fullt að borða og drekka fyrr um kvöldið þannig að mér finnst þetta frekar skrýtið. Til að summera þetta allt upp:
  • 0-3 mánaða - sofnar kl. 21,00 vaknar kl. 06,00 til að fá sér sjúss, svaf svo áfram til 08,00
  • 4-5 mánaða - sofnar kl. 21,00 vaknar kl. 12,00 / 02,00 / 04,00 / 06,00 til að fá sér sjúss, sefur svo áfram til 07,30.
Þetta lítur ekki vel út, er það nokkuð?? Þeir sem hafa einhver ráð er vinsamlegast bent á að hafa samband við mig og leysa fra skjóðunni.
Kveðja Ragna örvæntingarfulla

föstudagur, desember 03, 2004

Hún á áfmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún EYDÍS,
hún á afmæli í dag. !!!!
Getur einhver trúað því að við Egill eigum sex ára gamla dóttur. Ég bara get tæknilega ekki verið orðin svona gömul. Hún Eydís varð sex ára í dag og vaknaði við "fagran" söng foreldra sinna er þau gengu inn í herbergið hennar. Hún var náttúrulega löngu vöknuð og var að bíða eftir okkur. Svo gékk ótrúlega vel að klæða sig í skólafötin (hún er nefnileg orðin svo stór) og skólaskórnir eru loksins orðnir passlegir (hafa alltaf verið svolítið stórir). Svo borðaði hún morgunmatinn sinn og fékk svo að opna pakkan frá mömmu sinni og pabba. Það var forlátur "BRATZ" köttur (Bratz er mikið "inn" núna) og hoppaði hún hæð sína af ánægju. Kötturinn, sem heitir Rilley fékk svo að fara með í skólann ásamt miklu magni af nammi til að halda upp á daginn. Kennarinn var mikið fegin að sjá að hún kom með nammi en ekki köku - það er svo mikið vesen sagði hún. En svo er sem sagt planið að fá pakkana frá fjölskyldunni þegar hún kemur heim úr skólanum og svo verður eldaður uppáhalds maturinn hennar en það er spagettí með hakki. Á morgun kemur svo Guðrún í heimsókn og sennilega reyni ég að virkja þær til að hjálpa mér að baka afmælisköku. Guðrún gistir svo hjá okkur og ég fer með þær saman í afmælisveisluna á sunnudaginn. Þetta er heilmikið plan og verður sennilega mikið skemmtilegt !!
Jæja - með svipuna á bakinu þrælast ég áfram
kv. Ragna

fimmtudagur, desember 02, 2004


Mamma og krakkarnir Posted by Hello


Eydís að taka mynd af fjölskyldunni sinni Posted by Hello

miðvikudagur, desember 01, 2004

Til hamingju Einar
Já, 5 mánaða (+ 1 vika) og hann er komin með fyrstu tönnsluna. Hann er aðeins á undan systur sinni hvað þetta varðar en hún var 6m og 2v þegar hún fékk fyrstu tönnina. Hann var svolítið ergilegur í fyrradag og hann átti erfitt með svefn í gær og svo tók ég eftir því seinnipartinn í gær að tönnin var komin upp úr. Í nótt svaf hann svo ekkert sérlega vel og er greinilegt að þetta er eitthvað að pirra hann.
Svo er bara að bíða eftir næstu, og næstu, og næstu...!
kv. R