mánudagur, mars 15, 2004

Nú kemur lítil saga af því hvernig bankamálin ganga fyrir sig hérna.
Nú - á mánudaginn ætla ég að skreppa út í banka því að ég var með 2 ávísanir sem ég þurfti að skipta. Ein var endurgreiðsla frá skólanum mínum og hin var afmælispeningur frá Íslandi. Jújú - við Eydís förum og stöndum hálftíma í röð og komumst svo loksins að. 'Eg bið ungann mann vinsamlegast um að skipta fyrir mig ávísununum í peninga. Það sem mætir mér er bara furðusvipur og ungi maðurinn svara að það sé því miður ekki hægt. Ég verði að vera með reikning til þess að skipta þeim. Þar sem ég á engann reikning í Skotlandi gat ég ekkert gert. Hissa, stóð ég upp og labbaði út. Daginn eftir fór ég aftur út í banka og hafði í þetta sinn Egil með mér. Hann á reikning í bankanum og ég ætlaði bara að leggja herlegheitin inn á hann. Nei - viti menn.........ég get bara lagt inn á minn eigin reikning. Merkilegt. En að gera það á staðnum var ekki hægt.....konan sagði að við þyrftum að panta tíma hjá þjónustufulltrúa í aðalútibúinu og svo gæti ég fengið reikning. Við fórum upp á skrifstofu til Egils og reyndum í þrígang að ná sambandi við aðalútibúið og eftir að hafa flakkað á milli símstöðva í klukkutima gáfumst við upp og ákváðum bara að mæta á staðinn. Sem við og gerðum. Nú - leiðin lá beint í "Enquieries" til að fá tíma hjá þjónustufulltrúa. Þar mættum við myndarlegum dreng sem var ekkert nema óhjálpsemin. Þegar við sögðumst ætla að stofna reikning fyrir mig þá byrjaði hann á að snúa upp á sig og sagði að við gætum það ekki nema að hafa passann minn með. En þar sem að við Egill erum orðin svo sjóuð í þessu öllu saman þá var ég með passan í töskunni og skellti honum á borðið. Þá endurtók drengurinn (sem varð sífellt minna myndarlegur) að ég gæti samt ekki stofnað reikning því að ég yrði að koma með reikning sem væri stílaður á mitt nafn þannig að hægt væri að staðfesta heimilisfangið. Nú - en brá ég úr töskunni minni umræddann reikning og setti hann á borðið. Þá klykkti drengurinn út með því að við yrðum að geta sýnt fram á launaseðil eða staðfestingu frá LíN. Þá varð mér nú nóg boðið. Ég spurði hann bara hreint út hvort að heimavinnandi mæður þyrftu að sýna fram laun. Þá koðnaði hann eitthvað niður og sagði okkur að bíða. Ég meina það......það var alveg greinilegt að hann vildi ekki að ég stofnaði reikning. Á þessum tímapunkti var Egill orðin alveg sjóðandi íllur og orðaði það þannig að á þessum stundum vildi maður stundum óska þess að maður væri bara heima á gamla góða Íslandi.
En til þess að bjarga málunum kom ung stúlka og reddaði þessu öllu saman fyrir okkur. H'un stofnaði "Joint-account" fyrir okkur og ég fæ kortið mitt innan 10 daga. En þið verðið að hafa í huga að þetta er ekkert venjulegt debetkort......ó nei.....þetta er bara hraðbankakort. Þeir láta ekki útlendinga hafa venljulegt debetkort fyrr en þeir eru búnir að búa í landinu í 3 ár. En þeir eru sko alveg til í að láta mann hafa kreditkort. Ég sagði nú að þetta væri nú svolítið öfugt hjá þeim. Þeir eru til í að lána manni pening fyrir kreditkorti en leyfa manni ekki að fá kort til að eyða sínum eigin peningi. Við þessu hafði konan engin svör. Svo gegnum við út úr bankanum sæl og glöð með að hafa fengið náðarsamlegast að stofna bankareikning.
Þetta var smásaga dagsins.
kveðja Ragna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home