fimmtudagur, mars 18, 2004

Halló
Jæja - nú erum við formlega búin að segja upp leigunni á 24c Linksfield Road. Við þurfum sem sagt að rýma íbúðina fyrir 17. apríl. Mér líður einhvernvegin miklu betur andlega þessa dagana. Ég held að ég hafi bara algerlega verið búin að fá nóg af því að búa alltaf í svona þröngu húsnæði. Ég er ekki að segja að við séum að fara í einhverja höll en þegar maður er alltaf með troðfulla fataskápa af drasli, allt fullt undir öllum rúmum af því að það er ekkert geymslupláss þá verður maður eitthvað svo þreyttur. Í nýja húsinu fylgir allavegana geymsluloft og "shed" úti í garði. Það verður sko mikill munur. Mikið hlakkar mig til. Ég og Egill ætlum svo að fara á morgun í nýja húsið og mæla það allt upp til þess að vita hvað við megum kaupa stór húsgögn. Við ætlum svo að fara í "draumabúðina" okkar aftur (þið vitið hvaða búð ég er að tala um......skranbúðin mikla) og kaupa fataskápa. Við erum búin að finna einn sem er alger draumur og hann kostar bara 15 pund (2000 kall). Svo erum við að bíða eftir því að það komi inn hentugur skápur sem hægt verður að nota sem sjónvarpsskáp. Það er nefnilega draumurinn hans Egils að geta lokað sjónvarpið inní í skáp. Svo ætlum við að reyna að sitja fyrir nokkrum kommóðum og fleira held ég að okkur vanti nú ekki. Jú - reyndar eigum við engan sófa en það er sífellt verið að selja notaða sófa í gegnum local dagblaðið hérna þannig að við finnum áreiðanlega eitthvað sem verður hægt að sitja á.
En helstu fréttirnar eru nú þær að við keyptum okkur rúm í fyrradag. Já - nú kom sér vel að hafa fengið smá pening í brúðkaupsgjöf. Við keyptum stórt amerískt rúm með skúffum undir. (Jóhanna benti okkur á að svona skúffur væru nauðsynlegar) Það kostaði náttúrulega bara brotabrot af því sem það kostar heima. Til hamingju með það....takk, takk, takk.
Ég held reyndar að rúmakaupin séu helsta ástæðan fyrir því að ég sé svona spennt að flytja. Núna sofum við í rúmi sem er 1,35 cm og þurfum að hafa aukasæng undir okkur til að finna minna fyrir gormunum í dýnunni. Ekki hentugt fyrir ófríska frúnna, ónei.

En - læt ykkur vita hvernig mælingar á húsinu ganga á morgun og hvort að einhverjar framkvæmdir eru hafnar á því (held reyndar að þeir nái ekki að klára allt sem á að gera áður en við flytjum inn.) En þar er alltaf gott að vera hæfilega svartsýnn því þá verður maður ekki fyrir vonbrigðum ef allt fer á versta veg en afskaplega ánægður ef eitthvað tekst vel. (lífsspeki dagsins)

Kv. Ragna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home