þriðjudagur, desember 23, 2003

HÆhæ
Ég veit að ég lofaði að skrifa ekki meira fyrir jólin en einhvernvegin næ ég ekki að halda í mér.
Já- við komum náttúrulega heim fyrir 5 dögum og erum bín að vera á þönum síðan þá. Eins og sennilega "allir" vita þá gistum við hjá Gillí og erum í góðu yfirlæti. En til marks um hvað er búið að vera mikið að gera hjá okkur erum við að borða fyrstu máltíðina hjá þeim í kvöld. Nú annars verðum við hjá tengdamömmu í mat á morgun og opnum þar pakkana. Svo er það jólaboð hjá ömmu á jóladag og jólaball á Akranesi á annann í jólum. Þann 27. des. er jólaball hjá Frímúrurunum og svo stefnum við að því að fara vestur strax um kvöldið og gista hjá Rórsu. Þar fáum við heilan dag í afslöppun og svo er jólaball þann 29. des. og matur og brenna þann 30. des. Um kvöldið 30. keyrum við aftur í bæinn og verðum svo gamlárskvöld hjá mömmu og pabba í Garðabæen seinna um kvöldið í partýi hjá Gillí.
Svo erum við hreinlega ekkert plönuð þann 1. jan enda þótti mér heilbrigt að skilja þann dag eftir sem þynkudag.

En nú vitið þið sem sagt hvað er á döfinni hjá okkur næstu daga.

Enn og aftur óskum við ykkur ~GLEÐILEGRA JÓLA OG FARSÆLDAR Á NÝJU ÁRI~

Kveðja Ragna

þriðjudagur, desember 16, 2003

HÆhæ.
Ég er að skrifa til að tilkynna að bloggið mitt er hér með komið í jólafrí. Ég ætla ekkert að blogga fyrr en ég kem tilbaka frá Íslandi. Það mun vera 6. jan 2004.
Fyrir þá sem þurfa að ná í okkur gistum við hjá Gillí (Bakkagerði 9) til að byrja með og annað er óráðið.
Það er hægt að ná í okkur í síma 867-5960 og við tékkum reglulega á e-mailunum okkar.

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR :O)



Kveðja, Ragna

sunnudagur, desember 14, 2003

Góða kvöldið
Afrek helgarinnar voru þau helst að Egill kom í veg fyrir stórbruna í stiganganginum í dag. já- hann hafði verið úti að leika með Eydísi og var á leiðinni inn aftur þegar að hann heyrði í reykskynjara á efri hæðinni. Hann bankaði nokkrum sinnu og þegar hann var farinn að finna verulega reykjarlykt kom hann niður og hringdi í slökkvuliðið. Þeir hljómuðu nú frekar rólegir og sögðu við Egil að þeir myndu senda einhvern til að skoða þetta. Tveimur mínútum seinna voru hingað komnir 3 slökkvubílar og örugglega 20 slökkviliðsmenn. Svaka stuð. Þeir þutu upp og brutu upp hurðina og slökktu eldinn. Enda þjálfaðir til þess. Þetta var síðan ekkert stórvægilegt en hefði svo sem getað orðið verra. Það hafði gleymst pottur á eldavélinni og kviknað út frá því. En þetta var sem sagt spenningur dagsins og lítið frá öðru að segja. Jú, annars, við afrekuðum það líka að skrifa öll jólakortin. Já - þá er nú lítið eftir annað en að pakka inn öllum jólagjöfunum þegar við komum heim.
Spenningur vegna Íslandsferðar er farin að gera vart við sig á heimilinu og það er komin ein ferðataska á stofugólfið til að geta hent í hana því sem maður man eftir þá stundina. Eydís er á fullu að velja hvaða barbídúkkur fá heiðurinn að koma með henni því fjöldinn var takmarkaður niður í tvær.
Annars heldur jólasveinaævintýrið áfram. Hún byrjaði í fyrradag að taka til í herberginu sínu að fyrra bragði og sópaði meira að segja gólfið. Þetta var allt gert fyrir jólasveininn. Hún sagði ekki orða þegar hún var beðin um að fara í náttkjólinn og var hreinlega óþolinmóð að bíða eftir að pabbi sinn kæmi að lesa fyrir hana. Við Egill erum að hugsa um að fjölga jólasveinunum næstu jól í 24........þetta gerir lífið svo auðvelt.
Bið að heilsa í bili. Ragna

föstudagur, desember 12, 2003

Hæhæ.
Já, nú eru bara sex dagar þangað til að við komum heim og við getum ekki sagt annað en okkur hlakki alveg ROSALEGA til. Jólasveinninn kom með dót í skóinn til Eydísar í nótt og hún dáðist að því að hann skyldi koma alla leiðina til Skotlands með dót fyrir hana. Svo hafði hún miklar áhyggjur af því að hann kæmist ekki inn um gluggann þannig að ég sagði henni að ég myndi opna gluggan áður en ég færi að sofa. En hún vaknaði svo um nóttina (af því að sængin datt á gólfið) og tók eftir því að glugginn var ekki opinn og sótti mig til að opna hann. Þarf að hafa allt á hreinu. En hún var rosalega ánægð með dótið sitt og lofaði að vera dugleg að fara að sofa.
Annars var ég að koma frá því að horfa á hana í jólaleikriti í skólanum. Hún hafði reyndar ekkert hlutverk (eins og meirihlutinn) heldur var partur af kórnum og hún reyndi að syngja öll lögin sem þeim hafði verið kennd. Þetta var rosalega gaman.
En annars ekkert nýtt, 7 stiga hiti og logn. (fyrir veðurfróða)
Kveðja, Ragna

miðvikudagur, desember 10, 2003

Hæhæ
Við Egill byrjuðum á að skrifa jólakortin í gær. Já - ég er alveg búin að sjá það að þetta er ekkert skemmtilegt þegar ekki fylgir malt og appelsín og smákökur. Þetta var algerlega sterílt. Egill bætti sér það reyndar upp og fékk sér bjór en þar sem slíkur drykkur er ekki mér að skapi varð ég að sætta mig við vatn (eða mjólk). Ekki það sama og malt og appelsín. Já ég held að ég sé komin með einhverskonar fráhvarseinkenni á malti&appelsínu..... því það er ekkert annað sem mig langar meira í. Nema kannksi íslenskur lakkrís...ýsa með hamsatólg og soðnar kjötbollur. Já þetta er það sem mig langar helst í. Allt annað get ég keypt hér. Já það hljóta nú margir að verða hissa þegar við segjum að hér ómögulegt að kaupa ýsu. Sko - almennilega ýsu. Já, flökin eru svo lítil að þau eru eins og af þingvallamurtu og eru alls ekki góð - sennilega veidd í kringum olíuborpallana. Eini almennilegi fiskurinn hérna er laxinn (sem er nánast betri en á Íslandi) og túnfiskurinn. Nú svo er skötuselurinn ótrúlega ódýr en hvergi hægt að kaupa humar. Já - þetta er skrýtið land. En hér ákváðum við að vera þannig að maður verður að bíta í það súra. Við erum nú ekki farin að taka upp neinar skoskar matarhefðir því að þær eru alls ekki girnilegar. Sérstaklega ekki pylsurnar sem þér éta víst á morgnana. Það eru alls konar (Fitusprengdar) pylsur og blóðpylsur. Við fáum okkur nú samt einstaka sinnum egg og beikon á helgum (aðallega eftir skrall).
Já -ég gleymdi nú að segja ykkur frá því að við Egill fórum í matarboð á föstudaginn síðastliðinn. Já....prófessorinn hans Egils bauð öllum stúdentunum sínum í mat og drykki. Þau búa einhverstaðar fyrir utan Aberdeen þannig að við Egill buðumst til að vera á bíl og sóttum 2 samstúdenta Egils og eina kærustu. Þarna var svo strax boðið upp á alls konar drykki (mikið úrval) og sest inn í stofu og rabbað saman. (all voðalega formlegt) Svo var okkur boðið inn í borðstofu í matinn og það var nú sérstaklega áhugavert. Konan hans hafði búið til sitt "specialitet" sem samanstóð af kjúklingi í kássu með þykkum skinkubitum og sveppum úr dós. Sósan í kássunni var ljósrauð og ekkert sérstaklega bragðmikil. Svo var einn réttur sem var grænmetisréttur og var úr hrísgrjónum og cashew hnétum. Hann var reyndar fínn. Meðlætið samanstóð af soðnum hrísgrjónum, kartöflum, linsubaunum og sallati úr poka (bara grænt sallat, engir tómatar eða agúrka) og majones sem sallatsósa. Í eftirrét var síðan toffee pavlova með ávöxtum og alls kyns ostar og kex. Það var allt saman hið mesta lostæti.
Þetta var hin fínasta lífsreynsla og gaman að komast í kynni við ekta breska matargerð. (get nú reyndar ekki gefið því háa einkunn) En tek það enn og aftur fram að sérstaklega var vel veitt af áfengi, engin níska.

Jæja - það er víst best að halda áfram að læra
Bið að heilsa
Ragna

laugardagur, desember 06, 2003

HÆhæ
Nú er klukkan hálf ellefu og við erum að reyna að koma afmælisstelpunni í bælið. Hún er í nýju náttfötunum sem hún fékk í afmælisgjöf frá Amanda Lily vinkonu sinni. Barbie náttföt að sjálfsögðu. Já - hér var þetta líka fína afmæli í dag þar sem mættu áðurnefnd Amanda Lily, Jia og Andrés sem eru öll með Eydísi í bekk. Svo kom líka Guðrún Ástla með mömmu sinni (Jóhanna) og pabba (Atli) ásamt nýjasta íslendingnum í Aberdeen hinni fimm mánaða Maríu Rún.
Einnig voru mæður áðurnefndra barna og svo Hafdís. Þannig að úr varð ágætis mæting og þrusustuð.

En hérna er linkur á myndir úr afmælinu. AFMÆLI

Egill fór áðan útá videoleigu og tók 3 myndir. "Pirates of the Carrabean", "Terminator 3" og "Bruce Almughty" (3 á verði 2 - tilboð á videoleigunni). Ælta að fara og horfa á T3 og fara svo að sofa.

Endilega að skrifa athugasemdir á linkinn (SHOUT OUT) hér að neðan ef þið viljið skilja eftir skilaboð til okkar.

Góða nótt
Ragna

fimmtudagur, desember 04, 2003

Halú - alle i hopa.
Já ég var búin að skrifa niður heljarinnar pistil í gær á bloggið og skrapp aðeins frá tölvunni. Á meðan kom Egill og ætlaði að skoða einhverja Djö...ansk.... Liverpoolsíðu og af því að ég var ekki búin að "svava" þá hvarf allt. Þannig að ég gafst upp þann daginn og ákvað að prófa aftur núna.

Já - tilefni skriftanna í gær var að Eydís átti afmæli gær. Fimm ára skvísa. Já - en hún fékk að vera heima af því að hún er búin að vera kvefuð svo lengi. Reyna að ná þessu úr henni. Gærdagurinn var samt voðalega fínn - hún fékk að opna alla pakkana sem hún fékk frá Íslandi og maður lifandi hvað hún var ánægð með allt sem hún fékk. Þar á meðal voru bækur (sem vantaði sárlega), dúkkuhaus til að greiða, sverð (frá Alexander og Benedikt) húfa og vettlingar, barbíe dúkka og hlaupahjól. Svo eyddi hún deginum í að leika sér að öllu ´nýja dótinu sínu. Nú afmælisveislan verður næsta laugardag og von er á slatta af fólki. Hún býður þremur vinum sínum úr skólanum og svo bauð hún líka Magnúsi og Hafdísi (afa og amma í skotlandi) og Guðrúnu (4 ára) og mömmu hennar og pabba. Ég er að baka á fullu áður en að ég þarf að skríða í skólann en ég á að mæta í tíma klukkan 6-21. Reyndar verð ég að viðurkenna það að ég svindla svolítið í þetta sinn.......já ég hélt að ég myndi aldrei gera þetta en ég er að baka kökur frá Betty Croccker. Gulrótarköku og súkkulaðiköku. Svona er það þegar maður hefur eiginlega engin tól og tæki til þess að halda stórafmæli........þá er þetta neyðarúrræði.
En talandi um að baka...............................Egill bakaði rúgbrauð um daginn. Já,,, það var óóórúlega gott. Hann er meira að segja að hugsa um að bara meira. Þetta er svo gott með eggjum og kavíar. Það vantar bara síld.

Jææja - verða að hætta þessu blaðri. Þarf að taka köku út úr ofninum og setja aðra inn í staðinn. Svo þarf ég að prenta glærur fyrir tímann í kvöld.
Kveðja Ragna

P.S. Þórunn Ella, gott framtak að byrja að blogga aftur. Við Egill höfum einstaklega gaman af því að lesa "bullið" þitt.