þriðjudagur, maí 11, 2004

Gleðjist nú vinir nær og fjær...............Ragna og Egill eru loksins komin aftur í samband við umheiminn. Já - Internetsambandið komst á hjá mér áðan og nú sit ég hér í gleðivímu og hef mig ekki í það að fara og læra (eins og ég á að vera að gera).
Nú - nýjustu fréttir eru þær að ég fór í skoðun til læknis í gær og allt lítur rosalega vel út. Litla grjónið snýr með höfuðið niður (eins og er) en er ekki búið að skorða sig. Enda engin ástæða til að njörfa sig niður þegar að það eru rúmar fimm vikur í að maður komi út. Ég fer aftur í skoðun eftir tvær vikur og þá verður það líklega búið að skorða sig og ef að staðan er eins (á hvolfi) þá ætti allt að fara fram á eðliðlegan hátt.

Nú annars líður okkur rosalega vel hérna í nýja húsinu okkar og ég verð að segja að það er makalaust gott að hafa allt í einu nóg pláss. Í fyrsta sinn í tæp sex ár þarf ég ekki að geyma aukadót undir rúmunum okkar eða inní fataskápunum. Hér er nóg af geymsluplássi og allir eru ánægðir.
Ég verð nú að segja að ánægðust er hún Eydís mín. Hún fékk loksins stórt og gott herbergi (barnið bjó náttúrulega í skókassa í 3 ár) og allt er voðalega flott hjá henni, bleikar gardínur, fjólublá himnasæng og nýr fjólublár loðinn grjónastóll (frá ömmu Kiddý). Hún er í sjöunda himni. Svo finnst henni líka bara æðislegt að geta farið út hvenær sem hún vill og leikið sér í garðinum. Hún er líka á fullu í blómarækt því að hún gróðursetti fullt af sólblómafræjum fyrir tveim vikum og það er allt byrjað að spretta á fullu. Mér var sagt að sólblóm væru svo fín fyrir krakka því að það gerist allt svo hratt og þau verða líka svo stór og fín. En þetta er allt saman mikill spenningur og allar plönturnar skoðaðar í krók og kima á hverjum degi.
Eydís var í skoðun hjá hjúkrunarkonu í dag og ég fór með. Þar kom allt vel út, hún er í meðallagi há og í meðallagi þung. Hjúkrunarkonan sagði að hún væri sérstaklega dugleg með penna og skrifaði mjög vel fyrir barn á hennar aldri. Svo var hún hrifin af því hvað hún skildi allar skipanir vel og sagði að sum enskumælandi börnin hefði ekki alltaf náð því sem hún var að biðja þau um að gera. Það voru því stoltar mæðgur sem löbbuðu út úr herberginu skömmu seinna. Eydís fór síðan aftur í tíma en hún hafði sko tilkynnt mér að við gætum ekki verið lengi hjá hjúkrunarkonunni því "við erum að bake a cake in home economics". Algjör dúlla.

Jæja - nú skal lært af krafti þar til ég þarf að elda kveldmat. Eydís fékk að ráða hvað yrði í matinn og viti menn......pasta varð fyrir valinu.
Bið að heilsa í bili
Ragna