miðvikudagur, maí 30, 2007

OMG - ég er glataður bloggari
Húff - það er miklu erfiðara að blogga á Íslandi en í Skotlandi. Ég er viss um að þetta hefur eitthvað með vatnið að gera.
Mikið hefur á daga okkar drifið síðan ég bloggaði síðast - en eitt er það sem hefur ekki gerst. Við erum ekki ennþá búin að kaupa okkur bíl - og hananú.
En best að hefja upptalninguna:
  • Eydís tók vorpróf í fiðlunni og fékk 8,5. Það telst víst mjöög gott því ekki er gefið hærra en 9,0 í fiðluprófum. Kennarinn hennar heldur því líka fram að hún hafi hæfileika til að vera professional fiðluleikari þannig að við bara bíðum spennt eftir því.
  • Einar er hættur á bleyju!! Við foreldrarnir vorum farin að kvíða fyrir bleyjukaupum fram að fermingu en okkur til mikillar undrunar þá hætti minn maður bara sáttur á kosningadag. Hann ákvað um leið að hætta að sofa með bleyju og hefur þetta gengið allt vonum framar. Hann er rosalega duglegur og hefur lítið sem ekkert misst í buxurnar.
  • Við fórum til Aberdeen þann 18. maí og skildum Einsa kalda eftir hjá afa og ömmu í Skipholtinu. Hann heillaði þau upp úr skónum og var ofsalega góður.
  • Egill er orðin DOKTOR. Strákurinn komin með PhD gráðu og geri aðrir betur. Hann mun síðan útskrifast formlega þann 1. júlí (held ég). Við erum ákveðin í því að halda upp á áfangann og munum sennilega vera með opið hús snemma í júlí og allir geta þá mætt sem vilja fagna þessu með okkur.
  • Við spiluðum golf í Aberdeen. Ég fór á mínum besta hring ever, eða 52 högg.
  • Ég á bara einn dag eftir í ANZA en ég byrja hjá Þekkingu þann 1. júní.
  • hmmmmm..... það hefur eiginlega ekkert fleira gerst.

Jæja - nú fenguð þið helstu fréttir í stikkorðastíl. Fleiri fréttir er að finna á blogginu hjá Gillí. Hún er miklu duglegri við þetta en ég.
Kv. Ragna

þriðjudagur, maí 08, 2007

Kaupa bíl
Nú stöndum við frammi fyrir því að kaupa annan bíl. Við erum að vinna í sitthvorum bæjarhlutanum og verðum því að eiga annan bíl. Þetta eru allavegana mínar röksemdir. Fyrir liggur að kaupa litla púddu sem ekki eyðir miklu og kostar enn minna. Svo þarf að búa til keyrslu-plan. Á ég að keyra krakkana á morgnana og Egill að sækja þau seinnipartinn eða öfugt? Miklar spegúleringar í gangi.
Mikið hlakkar mig til að öðlast frelsi á ný. Já - eftir að hafa verið bíllaus í vinnunni hérna í heilt ár fékk ég að upplifa frelsi þegar að ég fékk bílinn hennar mömmu lánaðan í 2 vikur. Mikið varð Ragna hrifin !! Hún gat skroppið út í hádeginu og fengið sér að borða, hún gat verslað í matinn í hádeginu, hún gat leyft vesalings eiginmanninum að vinna aðeins lengur og sótt börnin og gat jafnvel bara ákveðið að fara ekki neitt. Þvílíkt frelsi. En það var skammlíft eins og svo margt og við tóku endalausar "skutlingar" út um allan bæ. Egill greyið byrjar daginn á að keyra mig í vinnuna, keyra svo Einar í leikskólann. Svo keyrir hann í vinnuna og er yfirleitt ekki mættur fyrr en um 09,00. Síðan þarf hann að hætta um kl. 15,30 til að komast í gegnum traffíkina, sækja Einar, sækja mig og svo skutla Eydísi í fiðlu og kór. Þolinmæðin í manninum hefur nátturulega verið einstök. Hann nær ekki nema hálfum vinnudegi sem getur nú reynt á þolrifin til lengdar.
EN - nú er þetta allt að breytast. Við erum búin að ákveða að kaupa bíl og vonandi bara í þessari viku. Jamm og já og ekkert múður.
Brúmm, brúmm, over and out
R

mánudagur, maí 07, 2007

Erfiðara en ég hélt.
Mér gengur ekki nógu vel að blogga. Líf mitt er hreinlega ekki nógu áhugavert til að það sé þess virði. En jú, ég ætla að halda áfram, allavegana þangað til ég fer í sumarfrí.
Ég ásamt stórfjölskyldunni hans Egils fórum í veiðiferð á fimmtudaginn. Lítið veiddist, þrír sæmilegir urriðar. En ferðin var rosalega skemmtileg. Það besta við ferðina var að ég tók mér 2 daga í frí frá vinnunni. Ég er orðin rosalega spennt fyrir því að losna frá þessu dæmi en mér sýnist það ekki ætla að verða að veruleika fyrr en í lok maí. Þá næ ég að vinna einn mánuð í nýju vinnunni og fer svo í sumarfrí. Svona á sko að gera þetta. !!
Krakkarnir hafa það fínt, alltaf nóg að gera hjá Eydísi í skólanum. Nú erum við með hana í stærðfræðiátaki. Það veitir ekki af því að hún er alveg úti að aka þegar kemur að stærðfræði. Ef þið kunnið einhverjar skemmtilegar aðferðir við að kenna stærðfræði má sko alveg segja mér frá. Einhver sagði mér að krakkar sem hefðu tónlistarhæfileika ættu líka auðvelt með að læra stærðfræði. Ég og Egill segjum hér með að þetta sé bull og vitleysa. Fiðlutímarnir ganga vel og hún á víst að vera með í tónleikum á föstudaginn. Svaka spennandi.
Einar kallinn er líka eldhress. Hann er að gera pabba sinn gráhærðan fyrir aldur fram, sennilega mig líka en þar sem mitt hár er litað þá sést það bara ekki. Sjálfstæðisbaráttan er þvílík að gera út af við okkur. Allt sem við gerum er vitlaust, og hann veit alltaf betur en við. Við megum sko alls ekki hjálpa honum með eitt eða neitt. Sko kemur náttúrulega að því að hann getur ekki eitthvað sjálfur, þá megum við sko ekki hjálpa heldur eigum við að gera þetta "saman". Þarna nær hann að halda sjálfum sér inni í myndinni en missir ekkert af sjálfstæðinu því hann er náðarsamlegast að "leyfa" okkur að vera með. Fyndinn gæi.

Jæja - þetta er nú þegar orðið allt of langt.
kv. Ragna