mánudagur, október 31, 2005

Kræst - svefnleysi orðið alvarlegt vandamál.
Eitthvað rugluðust börnin okkar í morgun og ákváðu ekki að nýta sér þennan auka klukkutíma sem við gátum sofið heldur vöknuðu extra snemma. Einar vaknaði hress og kátur kl. 06,00 og Eydís kom inn til okkar alklædd klukkan 07,00. Einar var sussaður niður en Eydís fór bara og fékk sér morgunmat. Mig hlakkar ekkert smá til þegar að staðan verður orðin þannig að Eydís getur gefið brósa að borða einstaka laugardagsmorgna.
En jæja - ætla að fara og hjálpa Eydísi að klæða sig í "Halloween" búninginn sinn. Það verður draugagangur í húsinu í kvöld.,
kv.Ragna

sunnudagur, október 30, 2005

Á sama tíma að ári!!!
Við Aberdeenbúar erum loksins komin á sama tíma og annað siðmenntað fólk. Semsagt - klukkan er sama hjá mér og hjá ykkur. Þetta getur aftur á móti valdið ýmiskonar ruglingi hjá okkur gamla fólkinu sem og ungviðinu. Allur svefn fer í rugling og kvöldmaturinn borðaður á kolröngum tíma. Og þetta er bara einn klukkutími sem við missum af deginum.
Nú líður að heimsóknahrinu til okkar en Haukur og Rósa koma næsta fimmtudag og svo koma M&P þriðjudaginn 15. nóv. Ég vildi bara óska að fleiri ætluðu að koma í heimsókn...... síðustu forvöð að tilkynna sig í heimsókn því að bráðum líður að brottför okkar frá hinu íðilfagra Skotalandi. Nei, nei.... það verður nú sennilega ekki fyrr en í maí og því nógur tími til heimsókna. Annars var ég að frétta það að Ásgeir brennur í skinninu að koma aftur í heimsókn og ætlar að láta reyna á það í páskafríinu. Thelma Kristín Litla systir er líka að hugsa um að koma í heimsókn sem er frábær hugmynd. Svo óska ég eftir sjálfboðaliðum til að koma til okkar fáum vikum áður en við flytjum heim. Mig vantar svona alsherjar hjálparhellu sem er til í að hjálpa að pakka, passa og halda mér kompaní við að koma búslóðinni frá mér. Ég veit bara hvað það getur verið gott að hafa einhvern sér til halds og trausts þegar á að standa í svona brasi. Þannig að allir sem hafa áhuga hafa samband við mig sem fyrst.
Jæja - heilsur í bæinn
kv. Ragna

föstudagur, október 28, 2005

Heitt - heitt - heitt
VIð Aberdeenbúa (ásamt fleirum) böðum okkur upp úr heitu lofti frá Afríku þessa dagana. Það er bara 14-15 stiga hiti um morgunin og í gær fór það upp í 17 stig þegar best var. Reyndar er rigning í dag en það virðist ekki hafa áhrif á hitastigið. Veðurfræðingarnir eru reyndar duglegir að minna mann á að svona verður þetta ekki til lengdar og við fáum ömurlegan og kaldan vetur. En ef það verður kalt hjá mér þá verður örugglega kaldara hjá ykkur og ég get huggað mig við það......heheheheh!!!!
En annars er fátt í fréttum. L'ifið er aftur komið í sinn vanagang eftir kartöflufríið. Sundið og ballettinn byrjaður hjá Eydísi og við Einar höldum áfram í ræktinni. Egill er að skila af sér fyrsta kaflanum í dag og er í stressi að reyna að klára töflur og myndir sem honum fylgja.
En læt þetta gott heita í dag - nenni ekki meir
kv.R

fimmtudagur, október 20, 2005

OMG - ein að reyna að vera aktíf.....
Já - nú er klukkan rétt rúmlega ellefu og ég er búin að ganga um allt hús með málningarpensilinn. Já - sko ástæðan fyrir því er að Skotar eru svo nískir að þeir nota bara matta málningu á veggina hjá sér. Afleiðingin er sú að það er engin leið að þrífa skít og aðra bletti af veggjunum. Því fer frú Ragna eins og stormsveipur um húsið reglulega og málar yfir blettina. Ég var nefnilega svo sniðug að biðja málarana sem máluðu áður en við fluttum inn að skilja eftir smá málningu. Þannig að - niðurstaðan..... ég er búin að sletta smá málningu á nánast hvern vegg í húsinu og mest inni á baði. Já talandi um baðið....... hverjum dettur í hug að nota matta málningu inni á baði??? Jú, viti menn,...auðvitað andSkotar. Veggirnir sjúga í sig rakann á hverjum degi og auðvitað endar maður með því að fá litla myglubletti hér og þar (virðist vera alveg sama hvort maður loftar vel út eftir sturtuna, veggirnir eru eins og svampar). Þannig að í morgun fór ég yfir þetta allt með klór og einhverri annarri eiturblöndu og svo málaði ég bara yfir herlegheitin. Er ekki máltækið svona:: "Out of sight, out of mind"?. Þannig allavegana virkar þetta hjá mér. Einnig taldi ég 8 kóngulær inni á baði þrátt fyrir að hafa ryksugað þar inni fyrir tveim dögum. Já - kóngulærnar hérna eru pínulitlar og nánast gegnsæjar þannig að maður sér þær ekki fyrr en maður er komin með nefið ofaní vefinn...ojjj. En það er nóg af þeim og þær elska að búa hjá mér.
Annars ákvað Einar litli að vera óþekkur í nótt og neitaði að sofa. Hann var alltaf að reka upp eitthvað væl og þó það væri greinilegt að hann var að reyna að sofna þá gékk það eitthvað ílla. Eftir einn og hálfan klukkutíma gafst Egill upp og fór með sængina sína yfir til Einars, lagðist í rúmið og þeir rotuðust báðir med det samme. Eydís var svo fyrst á fætur í morgun kl. 07,45. Einar og Egill komu inn til mín hálftíma seinna.... frekar myglaðir. Þannig að þetta verður þreyttur dagur fyrir flesta nema Eydísi.
Jæja - þetta var blogg dagsins - ætla að halda áfram að mála. Þarf að ná í loftmálninguna og bletta í myglublettina í loftinu inni á baði.
Bið að heilsa, Ragna

þriðjudagur, október 18, 2005

Óttalegur letingi hún Ragna
Já - ég er búin að hugsa það á hverjum degi að nú verði ég að blogga en letin nær alltaf yfirhöndinni og "lætur" mig gleyma því.
Við erum búin að hafa það óskaplega gott undanfarna daga. Fórum öll í sund síðasta laugardag sem hafði þær afleiðingar að við vorum öll svo þreytt seinniparts laugardags að það lá við að allir hefðu tekið sér eftirmiðdagslúr. Á sunnudaginn hysjuðum við okkur niður í bæ og versluðum jólagjafir og er því sem sagt formlega lokið. Þá á ég reyndar bara við jólagjafirnar sem við þurfum að senda úr landi. Annars þurfum við sennilega ekki að senda neitt heldur komum gjöfunum á vini og vandamenn sem heimsækja okkur í nóvember. Rósa og Haukur koma í byrjun nóvember og svo koma mamma og pabbi í skotferð um miðjan nóv. Þannig að þá er því reddað fyrir okkur.
Hmm .... hvað á ég að segja fleira.........!!!!
Jú ég er náttúrulega á fullu í ræktinni og sé engan árangur. En við því má alveg búast með svona jussur eins og mig. ...... tekur langan tíma fyrir kroppinn að fatta að það er eitthvað í gangi og kannski vit í því að missa nokkur grömm.
Svo langar mig að óska Bingó og Guðrúnu hjartanlega til hamingju með litlu stelpuna!!!

jæja - reyni að vera aktívari á blogginu í framtíðinni
kv. Ragna

þriðjudagur, október 11, 2005

Langt síðan síðast (I know!!!!)
Jæja - nú er litla fjölskyldan orðin hressari, svo hress að við hættum okkur út í haustveðrið síðasta sunnudag og fórum á leikvöll hér skammt frá. Það var náttúrulega æðislega gaman (fyrir Einar og Eydísi). Eydís var að leika sér við að rúlla sér niður litla brekku og skemmti sér vel. Svo kom hún að brattari brekku og þá þorði mín ekki að rúlla sér. "Ekkert mál" sagði pabbi hennar og demdi sér á bumbuna og rúllaði sér niður...........og afrekaði að blóðga á sér vörina. Þá ákvað Eydís að þetta væri stórhættulegt og hélt sig við litlu brekkuna. Skömmu áður hafði Einar litli verið að bisa við að klifra yfir grindverk og datt síðan beint á andlitið og blóðgaði líka á sér vörina og skrámaði nebbann. Eftir þessa stórhættulegu för í "parkinn" þá ákváðum við að fara heim.
Nú í dag var fyrsti dagur í rækt. Ég fékk ekki strax pláss fyrir krakkana í pössuninni en núna er ég komin á ról og á tíma á fimmtudaginn, föstudaginn og svo mánudaginn. Einar var nú víst ekkert alveg sáttur til að byrja með en róaðist svo niður enda með stóru systur til að hugga sig. Annars er ég með góðar fréttir - glöggir lesendur muna kannski eftir söguni um gönguskóna mína. Allavegana - ég átti líka þessa flottu gönguskó en einn daginn tók ég eftir því að þeir voru bókstaflega að detta í sundur. Ég sendi myndir og e-mail til verslunarstjoranns í Everest síðustu jól og fékk aldrei svar. Svo kom ég bara með skóna með mér í sumar og við mamma fórum með skóna og létum þau í Everest hafa þá. Við áttum ekki von á neinu enda orðnir 4 ára gamlir skór en náttúrulega ekki eðlilegt að þeir færu að molna í sundur. Allavegana - svo heyrum við ekkert frá verslunarstjóranum fyrr en mamma fer að grenslast um málið í gær og viti menn - haldið þið ekki að hún hafi látið mig fá nýja skó - ég er ekkert smá glöð.
En allavegana - nú er Einar orðin alveg brjál - og vill fá óskipta athygli
Yfir og út í bili
Ragna

miðvikudagur, október 05, 2005

Fjölgun hjá Thelmu.
Já - það átti sér stað fjölgun í heimilishaldinu í Hörpulundi um daginn. Hún Snælda greyið eignaðist fimm hvolpa, alla hvíta, 4 stelpur og einn strák. Það verður sem sagt hamagangur á hóli næstu mánuðina hjá Thelmu Kristínu og mömmu. Ef ykkur langar í hvolp þá endilega að hafa samband við þær mæðgur.
Nú ég vil líka óska Lára vinkonu til hamingju með nýju vinnuna en hún byrjaði sem markaðsstjóri hjá 66°Norður í dag. Þetta er engin smá áfangi og megi henni vegnast sem allra best.
Nú Iðunn, litla frænka hans Egils, varð 17 ára í gær (TIL HAMINGJU IÐUNN) og má því formlega keyra um götur bæjarinns. Eydís varð alveg furðu lostin þegar ég sagði henni þetta og var engan vegin að ná því að uppáhalds stóra frænkan hennar mætti keyra bíl.

Af okkur eru litlar fréttir í gangi eins og venjulega og eina sem ég get sagt ykkur er að veðrið er gott. Ég var annars að skrá mig í ræktina og byrja vonandi á morgun (eða hinn) og nú skal sko tekið á því. Magi, rass og læri eiga að fá rækilega fyrir ferðina enda hafa ekki hagað sér í samræmi við aðra parta líkamans. Einar fer í barnapössun á meðan (sem er ókeypis) og þegar að fríið byrjar hjá Eydísi þá taka þeir við henni líka, alger lúxus. Svo reynum við að skella okkur saman í sund eftir gymið.

kv. Ragna með heilsuna í fyrirrúmi.

mánudagur, október 03, 2005

...AÐ skríða saman
já - ég er öll að koma til. Núna er hitinn svo til farin en ég er ennþá með leiðinda hósta. Þannig að mér líður bærilega enda komin tími til......heilir 8 dagar farnir í veikindi. Egill er ennþá með hita og hósta og á ábyggilega nokkra daga eftir. Það versta er að hann Einar litli er byrjaður að hósta líka en sem betur fer er hann ekki með hita (ennþá). Þetta er voðalega skrítin veiki því að ég var aldrei neitt kvefuð eða með neina hálsbólgu. Bara hita og svo þyngsli fyrir brjóstinu sem breyttust í hósta og er ekki enn farin. Það kraumar alveg í lungunum á mér og Agli þannig að það er alveg ljóst að við höfum fengið eitthvað lungnakvef. Eydís er sú eina sem ætlar að vera laus við þetta enda svo sem ekki langt síðan að hún var veik síðast.
Nú - við viljum líka óska Gústa og Lísu til hamingju með litlu prinsessuna sem kom í heiminn þann 28. september. Mér skilst að hún hafi reynst þrjósk eins og Eydís og ætlað að reyna að koma öfug í heiminn og var þess vegna tekin með keisara. Um að gera að stoppa svona kjánaskap "í fæðingu" (Ég veltist um á gólfinu af eigin fyndni).
Allavegana - nú er komin mánudagur og stóru krakkarnir mínir eru farnir í skólann á meðan ég og Einar erum að rembumst við að ganga frá stórþvotti helgarinnar. Það er spáð alveg ágætis veðri hérna eða sól og 18°c stiga hita. Ekki slæmt það svona í byrjun október. Nú svo er bara ein vika þar til að Eydís er komin í tveggja vikna "tattie holiday" (kartöflufrín fyrir þá sem ekki skilja).
Jæjaa - Einar vill ekki að ég sé í tölvunni og heimtar að ég sinni sér eitthvað. Best að verða við því.
kv. Ragna