þriðjudagur, júní 27, 2006

Ohh - I know.
Ég er agalega lélegur bloggari og kenni miklum önnum þar um. Ég ákvað því að gerast svo ósvívin og stela textanum hennar Gillíar og setja hann hjá mér. Svona fyrir þá sem vilja fylgjast með í alvöru mæli ég með að þið lesið bloggið hennar Gillíar....... þar er sagt frá öllu.
En hér kemur stolni textinn:
"....Vikan hjá Agli og Rögnu hefur ekki verið alveg áfallalaus. Í byrjun síðustu viku veiktist Ragna, á föstudagsmorguninn var Einar orðinn veikur. Á leiðinni heim af flugvellinum á föstudaginn eftir að hafa sótt Egil var keyrt svo harkalega aftan á Subaru að hann er ónýtur, afturrúðan úr og sætin brotin. Það meiddist enginn alvarlega, þau kíktu samt á Slysó til málamynda en Ragna fann strax fyrir verkjum í baki og hálsi og er enn að drepast úr verkjum. Egill kom þar að auki haltur heim með skinnlausa litlu tá eftir að hafa asnast í búðir í nýjum skóm. Þau létu áföll og veikindi ekki á sig fá, fengu glæsikerruna mína lánaða og brunuðu vestur. Á sunnudaginn veiktist Eydís og um kvöldið þegar þau komu að vestan og voru að afferma kerruna datt Einar á eitt hornið og fékk svöðusár á ennið sem í þurfti að sauma 4 spor. Á mánudagsmorguninn var Egill svo orðinn veikur. Ég held að áföllum sé um að kenna einhverri skoskri óværu sem Egill tók með sér og spurning hvort ekki þurfi að særa burt drauginn hið snarasta...."

.....Og nú skiljið þið út af hverju hefur ekki verið bloggað svona lengi (nei, nei bara djók.)
En ég lofa að blogga hálfsmánaðarlega í sumar, meira get ég ekki.
kv.Ragna

föstudagur, júní 09, 2006

Gámamál
Það er ekkert gamanmál að standa í gámamálum. Gámurinn með búslóðinni lenti fyrir utan hjá Gillí og Palla á miðvikudaginn og í gær mætti sveit vaskra manna og kvenna til að tæma hann. Ég vissi ekki að við ættum svona mikið dót. En ég mætti fyrst og ásamt Ásgeir tókst okkur að losa innsiglið sem var nú bara stór járnbolti. Við notuðum bara barbaratæknina með hamri og járnsög þangað til að draslið gaf sig og datt í sundur. Skömmu síðar komu pabbi. TK, Gillí, Halldór, Þorgeir, Palli, Ívar og Haukur og þá byrjaði havarírið. Við fylltum bílana og drusluðum öllu yfir til mín og tengdó. Ég fyllti geymsluna sem fylgdi íbúðinni, slatti fór inn til Eydísar, ýmislegt inní stofu og hluti af hjónarúminu inn í mitt herbergi. Öll raftækin fóru til tengdó ásamt kössum og fleira dóti. Hjá Gillí lenti tjaldvagninn, hjól og sláttuvélin. Auðvitað fór nýja garðhúsið líka til hennar enda áttu þau það.
En nú er allt komið á sinn stað í bili og ég var gjörsamlega örmagna þegar ég kom heim um átta leytið. Það var absolut engin orka eftir og ég lá eins og skata í sófanum þar til að ég druslaðist í bað um níu leytið og dormaði þar í 3 korter. Þá loksins skreið ég upp í rúm og þakkaði guði fyrir að þurfa ekki að tæma fleiri gáma í bili. Það er alveg greinilegt að ég þarf að hressa aðeins upp á formið áður en ég tekst á við flutningana þann 17 júlí.
En þangað til er rúmur mánuður og mér tekst það alveg örugglega.
jæja - þarf víst að vinna eitthvað
kv.Ragna