laugardagur, júlí 10, 2004

Sælt fólk. ENN NÝJAR MYNDIR. Já, eins og þegar hefur fram komið í bloggi höfum við Eydís verið að æfa okkur að hjóla og í tilefni þess hafa verið settar inn myndir af þessum merka viðburði í okkar lífi. Þetta hefur gengið vonum framar og má stúlkan orðið heita alhjólandi; nokkuð gott fyrir ekki eldra barn þykir stoltum föður. Í raun tók þetta ekki nema þrjú skipti. Í fyrsta skipti ríkti nú fremur mikil angist og gekk lítið eins og búast mátti við en þó sást nokkur árangur. Í annað skiptið fóru að sjást umtalsverð rennsli og undir lokin gat hún hjólað grasblettinn (sjá myndir) á enda, þó misbeint. Þegar við komum svo út í hinu þriðja sinni gerði telpan karl föður sinn rasandi með því að hjóla af stað eins og ekkert væri og datt ekki þann daginn. Reyndar hafa verið uppi kenningar um að það hafi verið vegna þess að grasið var blautt og hættan á að verða verulega skítug flygi hún á höfuðið orðið til að hún einfaldlega þorði ekki að detta. Nú, æfingum var fram haldið í dag og má segja að allt hafi gengið að óskum, stelpan hjólar sem hún vill, bremsar, stýrir og leiðir hjólið eins og við á. Það eina sem enn er dulítið erfitt er að taka af stað upp á eigin spýtur og ófaramyndirnar sem ég setti inn eru afleiðingar af mistökum í ræsingu. Annars er héðan gott.
Cheers
Egill